Eftir ein undarlegustu jól lífs míns sit ég í lítilli íbúð Japanskrar stelpu sem finnur sig í Ameríkunni þessa dagana (minnir mig) og undirbý mig til að ráðast inn í enn eitt nýja árið. Í þetta skiptið er það tígrisdýrið sem tekur við af uxanum og ég gæti ekki verið jákvæðari með þessi spennandi skipti. Á meðan uxinn lokaði augunum og barðist áfram í gegnum strauminn er nú komið að tígrísdýrinu, sem er búið að vera að skerpa klærnar á meðan, að ráðast á hindranirnar af fullu afli.
Jól og áramót í Tokyo gætu varla verið draumi líkari. Mig hefur langað að upplifa þetta síðan ég man eftir mér og nú er það loksins orðið að veruleika. Hef nóg að segja um Tokyo og íbúa þessarar yndislegu borgar en hef engan tíma því nú þarf að drífa sig yfir í næstu íbúð (hjá Björk og Svenna) og taka smá forskot á þá heima og hringja inn nýtt ár. Og það ekkert smá ár, 2010! Þvílíkur tími til að vera á lífi :P
Jólin voru himnesk, fengum gnægðir af íslenskum mat, matargesti, öl, og nammi. Pakkarnir verða opnaðir þegar ég kem heim til Kyoto og þá nýti ég tímann til að skrifa um jólin, nýja árið og Tokyo.
Þangað til þá, verið góð heima og ég óska öllum gleðilegrar hátíðar og vona að nýja árið reynist ykkur öllum sem best! Það er bara eitt að gera við mótlætið, skyrpa í lófana og ráðast á það, að hætti tígrisdýrsins.
Baráttukveðjur,
xoxo
No comments:
Post a Comment